Innlent

Garðabær braut stjórnsýslulög

Garðabær braut stjórnsýslulög með því að ganga ekki frá fráveitukerfinu við iðnaðahverfið í Molduhrauni á viðunandi hátt. Úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir kvað upp úrskurð þessa efnis eftir að húsfélagið Miðhrauni 22 hafði kært bæinn. Fallist var á þau rök húsfélagsins að rotþróarkerfið annaði ekki hverfinu og á þá kröfu félagsins að fráveitukerfið væri ekki í samræmi við reglugerð um fráveitur og skólp. Kröfu um að bænum væri skylt að koma upp sameiginlegu fráveitukerfi var vísað frá. Úrskurðarnefndin sagði það ekki vera á verksviði nefndarinnar að kveða á um slíkt. Málið hefur verið í gangi allt síðan í október árið 2001 þegar bæjaryfirvöldum var sent bréf frá lögmanni húsfélagsins þar sem kvartað var yfir ástandinu. Þó kröfunni um að bænum væri skylt að koma upp sameiginlegu fráveitukerfi hafi verið vísað frá telja heimildir Fréttablaðsins víst að fyrirtæki í Molduhrauni muni fara fram á það við bæjaryfirvöld í Garðabæ að þau lagi fráveitumálin. Staðfest sé að bærinn hafi með frágangi sínum brotið stjórnsýslulög.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×