Innlent

Lög á kennaraverkfallið

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að setja lög á kennaraverkfallið. Alþingi var kvatt saman í morgun og samþykkt var að taka frumvarpið á dagskrá með afbrigðum. Formaður Kennarasambandsins segir að þetta sé svartur dagur fyrir kennara. Lagafrumvarpið gerir ráð fyrir að Hæstiréttur skipi Gerðardóm þriggja manna til að fjalla um launakjörin, hafi ekki samist fyrir fimmtánda desember. Samkvæmt frumvarpinu skal gerðardómur hafa hliðsjón af almennri þróun á vinnumarkaði frá gerð síðasta kjarasamnings deilenda, en einnig af þeim störfum sem teljast sambærileg, hvað varðar menntun, störf, vinnutíma og ábyrgð. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra segir ríkisstjórnina ekki hafa sóst eftir aðild að málinu og talið að hinir eiginlegu deiluaðilar ættu að leysa málið. Hins vegar muni ríkisstjórnin ekki skorast undan því að leysa málið til lykta, þegar deilan sé komin í algeran hnút. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingar, segist vera á þeirri skoðun að kjaradeilur eigi ekki að leysa með lagasetningu. Ríkisstjórninni hafi orðið á alvarleg mistök, bæði í aðdraganda verkfallsins og eins þegar samningurinn hafi verið færður til samþykktar. Staðan sem upp væri komin í dag, þyrfti ekki að vera við lýði, ef ríkisstjórnin hefði sýnt sveitarfélögunum sanngirni í fjármálum. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri Grænna, sagði í morgun ríkisstjórnina hafa neitað að bera ábyrgð í málinu hingað til og hún beiti nú fyrir sig börnum landsins. Það sé komin upp svo alvarleg staða að ekki séu aðrir kostir, en að setja lög á verkfallið, að mati ríkisstjórnarinnar. „Þetta er ekki stórmannlegt," sagði Ögmundur. Kennarar fjölluðu um verkfallslögin í Verkfallsmiðstöðinni Borgartúni. Eiríkur Jónsson formaður Kennarasambandsins gerði kennurum grein fyrir frumvarpinu og efni þess. Hann sagði þetta svartan dag fyrir kennara og í raun verra en nokkurn hefði órað fyrir. Hann sagði sveitarfélögin hafa sýnt að þau væru vanhæf til að reka skóla og ættu að viðurkenna það. Þá sagði Eiríkur að sér væri til efs að nokkur annar menntamálaráðherra hefði áður rúið sig trausti kennarastéttarinnar á jafn skömmum tíma. Hún hefði svívirt kennara og skólastarf í beinni útsendingu á Stöð 2 í gær. Með ólíkindum væri að kona skildi gera sig seka um að gera svo lítið úr kvennastétt, sem raun bæri vitni. Eiríkur sagði einu lausnina á málinu nú vera þá að sveitarfélögin gengju að tilboði kennara frá því á mánudaginn. Að öðrum kosti yrði gerðardómur að úrskurða kennurum mun hærri laun en sú tillaga fæli í sér. Hann sagðist jafnframt telja að ríkisstjórnin og sveitarfélögin hefðu fyrir löngu sammælst um að þeir fyrrnefndu kæmu að deilunni þegar verkfallsjóður væri uppurinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×