Innlent

Krefst grundvallarbreytinga

Oddviti Bláskógabyggðar segir að gera verði grundvallarbreytingu á uppbyggingu og starfsemi margra sveitarfélaga, verði fólki heimilað að eiga lögheimili í sumarbústöðum, eins og Héraðsdómur Reykjavíkur komst að niðurstöðu um, í gær. Að sögn Sveins Sælands, oddvita, verður málinu að öllum líkindum áfrýjað til Hæstaréttar, en ákvörðun um það verður tekin á þriðjudag. Sveinn segist vilja að það komi skýrt fram að hann sé ekki þar með að amast við búsetu fólks í sumarbústöðum. heldur gildi allt aðrar reglur og skipulagsforsendur um sumarbústaðabyggðir en heilsársbyggðir. Í bláskógabyggð séu um tvö þúsund sumarbústaðir á Þingvöllum, Laugarvatni og í Biskupstungum, en allstaðar sé nokkur spölur í þéttbýli og þjónustu. Verði dómur héraðsdóms staðfestur í Hæstarétti þurfi til dæmis að breikka alla akvegi í sumarbústaðabyggðum til að samræmast reglum um breidd í þéttbýli, en víða væri óhægt um vik vegna þrengsla. Þá þyrfti að taka upp skólaakstur og jafnvel stækka skólana , halda uppi snjóruðningi á veturna og svo framvegis. Fyrir Bláskógabyggð þýddi þetta grundvallarbreytingu á sveitarfélaginu og framtíðar uppbyggingu sumarhúsabyggða. Málið gegn Bláskógabyggð og Hagstofunni líka, höfðaði maður, sem hefur sest að í sumarbústað sínum í Laugarási, en börn hans fengu ekki aðgang að grunnskólanum í sveitinni þar sem fólkið taldist ekki eiga lögheimili í sumarbústaðnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×