Innlent

Dæmdir til bóta vegna nauðgunar

Þrír menn voru dæmdir til að greiða konu skaðabætur í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Konan höfðaði skaðabótamál á hendur mönnunum, og íslenska ríkinu vegna hópnauðgunar. Ríkissaksóknari hafði tvívegis neitað að taka málið upp þar sem framburður mannanna þriggja þótti vega þyngra en frásögn konunnar og framkomin gögn dygðu ekki til sakfellingar. Konan krafðist einnig skaðabóta frá Íslenska ríkinu þar sem lögreglurannsókn hefði verið verulega ábótavant. Hulda Rúriksdóttir lögmaður konunnar segir að dómurinn hafi ekki tekið afstöðu til rannsóknarinnar og ekki talið að hagsmunir konunnar fælust í því hvort ákært væri í málinu eða ekki. Íslenska ríkið var því sýknað af kröfunni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Mennirnir þrír voru hinsvegar taldir hafa framið ólögmæta meingerð gegn konunnni og æru hennar og eiga að greiða henni ellefu hundruð þúsund krónur í skaðabætur. Tildrög málsins eru þau að konan hafði verið á krá í miðbænum ásamt vinkonu sinni. Hún fór í samkvæmi ásamt þremur mönnum í hús í Breiðholti þar sem henni var nauðgað af öllum þremur mönnunum. Konan taldi að ef hún myndi veita mótspyrnu gæti það leitt til frekari líkamsmeiðinga og því voru ekki áverkar á henni sem staðfestu framburð hennar. Konan tilkynnti lögreglu um atburðinn um nóttina og var henni ekið á neyðarmótttöku. Húsráðandi var hinsvegar ekki yfirheyrður fyrr en daginn eftir og hinir mennirnir ekki fyrr en tveimur dögum seinna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×