Innlent

Heineken varar við ofdrykkju

Viðvörunarmiðar, sem vara við áhrifum of mikillar drykkju áfengis, verða innan árs komnir á allar umbúðir Heineken, að því fram kemur á fréttavef BBC. Að sögn Eggerts Ísdal munu þessar viðvaranir einnig birtast íslenskum neytendum: "Þeir ætla að reyna að mæla með hóflegri drykkju og vísa á vefsíðu sína um hóflega drykkju," segir Eggert. Hér á landi verða umbúðirnar orðnar merktar um mitt næsta ár en ekki er búið að ákveða hvernig miðarnir munu líta út. Ekki er mikið um viðvörunarmiða á áfengi hér á landi. Helst er að finna viðvaranir á flöskum frá Bandaríkjunum þar sem segir að áfengi og akstur fari ekki saman og einnig tilmæli til ófrískra kvenna. Fréttavefur BBC segir þessa stefnu Heineken koma til þar sem matar- og drykkjarframleiðendur vilja forðast hinar háu skaðabótakröfur sem tókbaksframleiðendur hafa þurft að greiða. "Þó að neytendur séu ábyrgir fyrir drykkjuhegðun sinni, leggjum við áherslu á að minna þá á og upplýsa neytendur um ábyrga drykkju og hættu á ofnotkun áfengis," sagði stjórnarformaður Heineken, Thony Ruys, í samtali við BBC.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×