Innlent

Íslendingar þjálfi Íraka

Davíð Oddsson utanríkisráðherra segir að verið sé að kanna hvort íslenskir sprengjuleitarmenn geti komið að þjálfun öryggisveita í Írak. Hann segist vonast til þess að viðræður hans og Colins Powells, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á þriðjudaginn í næstu viku verði til þess að létta þeirri óvissu sem hafi verið um varnarmálin. Utanríkisráðherra, sem flutti skýrslu sína um utanríkismrál í morgun, segir að íslensk stjórnvöld leggi megináherslu á að hafa hér loftvarnir. Það hafi komið glögglega í ljós í viðræðum við Bandaríkjaforseta og hann hafi fallist á þær áherslur að mestu leyti. Engin þjóð geti verið alfarið án loftvarna þrátt fyrir endalok Kalda stríðsins. Stjórnarandstæðingar sögðu í morgun að bandarísk stjórnvöld færu sínu fram varðandi varnarstöðina. Þar væri skorið niður jafnt og þétt þrátt fyrir að annað væri gefið til kynna í viðræðum við íslensk stjórnvöld. Davíð segir að 2. maí árið 2003 hafi verið tilkynnt að eftir mánuð færu þoturnar af landi brott, og ef stjórnvöld myndu andmæla því færi varnarstöðin öll. Stjórnvöld hafi hins vegar gripið í, m.a. með viðræðum við forseta og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og þess vegna séu þoturnar hér ennþá.   Davíð segir að ekki sé komin viðræðuáætlun fyrir fund hans með Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á þriðjudaginn í næstu viku. Hann segist hins vegar vonast til þess að viðræður hans og Powells verði til þess að létta þeirri óvissu sem hafi verið um varnarmálin. Davíð Oddsson vék orði að íslensku friðargæslunni í Afganistan í ræðu sinni og sagði að verið væri að kanna með hvaða hætti Íslendingar gætu tekið þátt í þjálfun írakskra öryggissveita á vegum NATO í Írak. Hann sagðist hafa sprengjuleitarsveit Landhelgisgsæslunnar í huga. „Ég held að það sé enginn rosalegur rembingur þó við segjum að okkar menn séu þar í fremstu röð og gætu þess vegna tekið þátt í að þjálfa Íraka sjálfa í því að leita að sprengjum og gera þær óvirkar. Ekki veitir nú af í landinu því,“ segir utanríkisráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×