Innlent

Segir ummælin ekki misvísandi

Félagsmálaráðuneytið vísar á bug að ummæli félagsmálaráðherra um skýrslu Ríkisendurskoðunnar um meðferðarheimilið á Torfastöðum séu misvísandi, eins og sagt var frá í fréttum Stöðvar 2 í gær. Óskað var eftir viðtali við félagsmálaráðherra en hann neitaði því. Þess í stað sendi ráðuneytið yfirlýsingu þar sem sagt var að ummæli Árna væru ekki misvísandi á nokkurn hátt í málinu. Hann sagði um Torfastaði að meðferðarheimilið hefði neyðst til að segja upp samningi sínum við Barnaverndarstofu en í greinargerð Ríkisendurskoðunnar segir að meðferðarheimilinu hefði tvisvar boðist að gera nýjan samning. Ráðherra sagði að greiða þyrfti bætur upp á fjórtán milljónir til rekstaraðila heimilisins en í greinargerðinni segir að greiðslur, kjósi ráðuneytið að fara þá leið, skuli verða hóflegar, m.a. vegna þess að engin lögvarinn réttur er á þeim. Hann sagði þarna hafa orðið trúnaðarbrest sem byggði á persónulegum samskiptum en í greinargerðinni segir að öll framganga Barnaverndarstofu hafi verið málefnaleg og sanngjörn. Fyrri fréttir byggðu á samantekt úr greinargerðinni sem Ríkisendurskoðun tók saman en skýrslan í heild sinni var ekki birt þar sem að hluta var um persónleg málefni að ræða. Á grundvelli upplýsingalaga var hins vegar fallist á beiðni fjölmiðla að láta skýrsluna af hendi, en þó er búið að strika yfir ákveðna hluta hennar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×