Innlent

Vilko ehf. aftur af stað

Forráðamenn fyrirtækisins Vilko ehf. á Blönduósi, sem eyðilagðist í eldsvoða í lok síðasta mánaðar, eru að hefja framleiðslu á nýjan leik. Þessa dagana er verið að prufukeyra nýjar vélar og standa vonir til að framleiðsla hefjist strax eftir helgina. Tjónið nam tugum milljóna króna. Grunur lék á að um íkveikju hefði verið að ræða. "Það fór allt fyrirtækið, þetta gjöreyðilagðist náttúrlega," sagði Daníel Árnason, stjórnarformaður Vilko ehf. "Við höfum verið að koma okkur fyrir á nýjum stað, viða að okkur tækjum, hráefni og umbúðum. Það kemur allt frá útlöndum. Við höfum unnið hörðum höndum að endurreisn fyrirtækisins og þetta er að fara af stað aftur." Vilko ehf. stendur á gömlum grunni. Þar eru framleiddar súpur og bökunarblöndur. Á næstu dögum tekur það til starfa í nýju húsnæði, að Hnjúkabyggð á Blönduósi. "Við verðum að fara af stað með hægvirkari vinnslu en áður, en gæðin verða í góðu lagi," sagði Daníel. "Við verðum ekki búnir að tækjavæða okkur til fulls, þegar framleiðslan hefst á nýjan leik, en við reynum að vinna lengri daga. Hjá okkur hafa unnið 5-6 manns, en verða um 10 núna meðan verið er að ljúka við tækjavæðinguna. Þetta er gamalt og gróið fyrirtæki, sem er vel kynnt. Ég vona að markaðurinn hafi ekki gleymt okkur. Það er dýrt að missa eitt hak úr tannhjólinu." Daníel sagði að það tæki einhverja mánuði að koma fyrirtækinu í það horf sem það var í áður en bruninn varð. Trúlega yrði það ekki fyrr en einhvern tíma í vetur sem framleiðslan yrði komin í fullan gang.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×