Innlent

Atlantsolía fjölgar stöðvum

Atlantsolía ráðgerir að reisa sex nýjar bensínstöðvar á næstu misserum en það rekur aðeins tvær afgreiðslur núna, aðra í Hafnarfirði og hina í Kópavogi. Fyrsta nýja stöðin tekur til starfa á Sprengisandi í Reykjavík upp úr áramótum og verður skóflustunga tekin að henni á næstu dögum. Næsta stöð verður við Hreðarvatnsskála við Norðurlandsveg og þá hefur félagið tryggt sér lóðir á Ísafirði, í Stykkishólmi, við Suðurlandsveg skammt frá Selfossi og í Njarðvík. Röðin er ekki endanlega ákveðin en sami verktaki mun reisa allar stöðvarnar og samskonar búnaður verður í þeim öllum. Félagið lækkaði verð á bensínlítranum um eina krónu á miðnætti og kostar hann nú 102,90. Hugi Hreiðarsson, markaðsfulltrúi félagsins, segir að gríðarleg viðskipti hafi verið síðan skýrsla Samkeppnisstofnunar um samráð hinna olíufélaganna var birt. Sölutölurnar séu á við sölutölur á Þorláksmessu, upp á hvern dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×