Innlent

Gegnsær opinn rekstur

Forstjóri Olíufélagsins segir að mestu máli skipti að rekstur Eldsneytisafgreiðslunnar á Keflavíkurflugvelli, sem stóru olíufélögin þrjú eigi saman, sé gegnsær og standi öllum opinn. Atlantsolía hefur ekki áhuga á að ganga inn í slíkt samstarf. Eldneytisafgreiðslan á Keflavíkurflugvelli, eða EAK ehf, var stofnað fyrir tveimur mánuðum á grundvelli annars félags. Stofnendur og eigendur eru olíufélögin Olís, Skeljungur og Olíufélagið. Félagið sér um afgreiðslu eldsneytis á Keflavíkurflugvelli, eignaumsýslu og þjónustu við olíufélög og flugrekendur á vellinum. Hjörleifur Jakobsson, forstjóri Olíufélagsins, segir að að sínu mati sé eðlilegt að hleypa öllum sem vilji að þessu fyrirtæki. Að hans áliti er jafnframt nauðsynlegt að starfsemin sé gegnsæ.   Að frátöldum fyrrnefndum olíufélögunum þremur er bara eitt olíufélag á landinu sem ekki er inni í EAK, Atlantsolía. Þar á bæ höfðu menn ekki heyrt af EAK fyrr en í dag. Hugi Hreiðarsson, talsmaður Atlantsolíu, segir ekki áhuga hjá fyrirtækinu að taka þátt í samstarfi félags á Keflavíkurflugvelli með hinum þremur olíufélögunum vegna þess að Atlantsolía kjósi að starfa algjörlega sjálfstætt. Félagið sé með eigin innflutning á eldsneyti og þar liggi einn af þeirra styrkleikum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×