Innlent

Ósáttir matreiðslumenn af Vellinum

Matreiðslumönnum sem sagt var upp störfum í aðalmatsal Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli í sumar svíður að ófaglært fólk skuli látið taka við störfum þeirra. "Við getum í sjálfu sér ekkert sagt við því þó þeir vilji ekki hafa okkur í vinnu, en atvinnurekandinn verður þá að ráða faglært fólk í staðinn," segir Eiríkur Hansen matreiðslumaður, einn þriggja sem sagt var upp. "Ég veit ekki til hvers maður er að fara í skóla til að ná sér í réttindi ef þau skila manni engu," sagði hann og taldi að sparnaður lægi að baki, því hægt væri að borga ófaglærðum lægri laun. Níels Sigurður Olgeirsson, formaður Matvíss, matvæla- og veitingasambands Íslands, segir óásættanlegt ef Varnarliðið sé að fylla skörð faglærðra matreiðslumanna með ófaglærðu starfsfólki. Hann segist hafa fengið þau svör hjá Varnarliðinu að í veikindum hafi tímabundið verið ráðið inn ófaglært fólk. Níels taldi að mál skýrðust um miðjan mánuðinn þegar rynni út tímabundin ráðning ófaglærðs kokks. Jafnframt sagðist hann hafa falið lögfræðingum félagsins að skoða hvaða leiðir væru færar ef í ljós kæmi að verið væri að brjóta á fólki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×