Innlent

Skóli á Hellu braut stjórnsýslulög

Grunnskólinn á Hellu braut stjórnsýslulög þegar tengdasonur skólastjórans var ráðinn til að aka börnum frá Þykkvabæ til skólans á Hellu. Skólastjórinn lýsti sig vanhæfan til að ráða í stöðuna og var aðstoðarskólastjórinn fenginn til þess. Hann réði tengdasoninn í starfið, sem þó hafði ekki tilskilin réttindi til skólaaksturs þegar hann sótti um. Réttindin fékk hann seinna. Í kjölfarið sendi Grétar H. Guðmundsson, sem sótti um starfið en fékk ekki, sveitarstjóra Rangárþings ytra bréf. Í bréfinu sagði hann ráðninguna stangast á við stjórnsýslulög og fór fram á ráðningin yrði endurskoðuð og áskildi sér rétt til skaðabóta. Samkvæmt lögfræðiáliti sem sveitarstjórnin fékk Málflutningsskrifstofuna ehf. til að gera kemur skýrt fram að aðstoðarskólastjórinn, sem undirmaður skólastjórans, hafi einnig verið vanhæfur til að ráða í stöðuna. Samkvæmt álitinu er hins vegar ekki hægt að ógilda samninginn sem var gerður. Á hreppsnefndarfundi í síðustu var samþykkt að gefa þeim verktökum sem sóttu um starfið en fengu ekki kost á að fá sannanlegan kostnað við umsóknir sínar greiddan. Minnihlutinn í sveitarstjórn í Rangárþings ytra gagnrýndi ráðninguna harkalega. Í bókun minnihlutans á fundi kemur fram að þegar verkið var auglýst hafi ekkert verið tiltekið um þær kröfur sem viðkomandi þyrfti að uppfylla, hvorki hvað varðar tilskilin réttindi né ökutæki. "Almenna reglan hefur verið sú að skólabílstjórar hafa verið ráðnir beint af framkvæmdastjóra sveitarfélagsins. Vegna tengsla eins af umsækjendum við skólastjóra, en sá umsækjandi var síðan ráðinn, hefði sú vinnuregla betur verið viðhöfð í þetta skiptið. Þau vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð eiga, að okkar mati, ekki að þekkjast í opinberri stjórnsýslu." Í samtali við Fréttablaðið segist Grétar enn ekki hafa fengið formlegt svar frá sveitarstjórninni. Hann útiloki ekki að fara með málið lengra og leita réttar síns með tillitil til hugsanlegra skaðabóta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×