Innlent

Tímamótasamningur

Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir að góðir samningar hafi náðst við útvegsmenn sem tryggi sjómönnum verulegar kjarabætur. Þetta er í fyrsta skipti í tíu ár sem sjómenn og útvegsmenn komast að samkomulagi um kaup og kjör, án afskipta stjórnvalda. Samningaviðræður sjómanna og útvegsmanna hafa staðið yfir hjá ríkissáttasemjara frá því í febrúar á þessu ári, en það var ekki fyrr en í þessari viku sem verulega fór að draga saman með samningamönnum. Drög að nýjum kjarasamningi litu dagsins ljós í gær og voru þau kynnt og samþykkt af samningamönnum Landssambands íslenskra útvegsmanna, Sjómannasambandsins og Farmanna- og fiskimannasambandsins í gær. Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambandsins, fagnar því að samningar séu loks í höfn, en sjómenn og útvegsmenn mæta í húsnæði ríkissáttasemjara klukkan eitt í dag og verður nýr kjarasamningur undirritaður á öðrum tímanum. Sævar segir þetta tímamótasamning. Hann segir samninginn gerðan við aðrar aðstæður en þekkst hafi í meira en áratug. Sævar segir meginástæðu þess að samningar náðust vera þá að mikill vilji hafi verið af beggja hálfu til þess að ná þeim. Hann segist ekki vilja fara ofan í einstök atriði samningsins fyrr en skrifað verður undir. Sævar segir að í samningnum felist mikil kjarabót fyrir sjómenn og hann sé ánægður með samninginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×