Innlent

Verkfallinu frestað

Kennsla hefst í grunnskólum landsins á mánudag, eftir að deilendur í kennaradeilunni samþykktu í nótt að fresta kennaraverkfallinu á meðan báðar fylkingar kynntu sér nýja miðlunartillögu sáttasemjara og greiddu atkvæði um hana. Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari lagði tillöguna fram upp úr miðnætti og þegar endanlega hefur verið frá henni gengið í dag, verður hún send út til kennara og sveitarstjórnarmanna og á kosningu um hana að vera lokið mánudaginn 8. nóvember. Verði hún samþykkt, verður verkfallið endanlega blásið af, en ef hún verður felld, hefst verkfall að nýju. Sáttasemjari greinir ekki frá innihaldi tillögunnar að svo stöddu, en hún fór að mótast síðdegis í gær, eftir að formenn samninganefnda réðu ráðum sínum við félagsmenn í kjölfar fundar með ríkissáttasemjara í gærmorgun. Kennarar eiga að mæta til vinnu í dag til að undirbúa skólahald á mánudagsmorgun. Samkvæmt skólaalmanaki á vikulangt vetrarfrí að hefjast í mörgum grunnskólum á mánudag og eru það frídagar kennarra. Sveitarfélögin verða því að semja við kennara um greiðslu launa fyrir að vinna í fríinu, þar sem svo stendur á, ef kennsla á að geta hafist á mánudagsmorgun. Vetrarfí kennara á til dæmis að vera í Reykjavík í næstu viku og ætlar Fræðsluráð Reykjavíkur að fjalla um málið á aukafundi í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×