Innlent

Rúmur helmingur tekna í fræðslu

Rúmur helmingur tekna íslenskra sveitarfélaga var notaður til fræðslu- og uppeldismála í fyrra. Tvö sveitarfélög vörðu rúmlega 90 prósentum tekna sinna til þessa málaflokka. Samtals vörðu sveitarfélögin tæplega 48 milljörðum króna til fræðslu og uppeldismála í fyrra. Það eru 51,1% tekna þeirra. Þetta kemur fram í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns Möllers, alþingismanns. Eðli málsins samkvæmt er mestu eytt í Reykjavík til þessara málaflokka, eða tæpum 17 milljörðum króna. Það er þó innan við helmingur tekna Reykjavíkurborgar. Mörg sveitarfélög eyða hlutfallslega mun meiru til fræðslu og uppeldismála. Mestu eyðir Saurbæjarhreppur, 92,3 prósentum, þá kemur Bæjarhreppur með 90,6 prósent. Þar á eftir koma Villingaholtshreppur, Leirár- og Melahreppur og Reykhólahreppur. Torfalækjarhreppur eyðir sveitarfélaga minnst í fræðslu og uppeldismál, eða 26,9 prósentum. Ásahreppur notar rúm 30 prósent tekna sinn í þessa málaflokkar og þar á eftir koma Seyðisfjörður, Raufarhöfn og Skorradalshreppur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×