Innlent

Frammíköll, skvaldur og fliss

Geir H. Haarde fjármálaráðherra sakaði Samfylkinguna um málefnaskort þegar hann var gagnrýndur fyrir það í upphafi þingfundar að skipa einungis karlmenn í nýja framkvæmdanefnd um stofnanakerfi og rekstur verkefna ríkisins.  Katrín Júlíusdóttir hóf máls á þessu og sagðist hafa fengið áfall er hún sá að fjórir karlmenn hefðu verið skipaðir í þessa mikilvægu nefnd. Hún og nokkrir aðrir þingmenn Samfylkingar sökuðu ráðherra um að hunsa áætlanir um jafnréttismál. Geir Haarde svaraði því til að málefnaþurrð Samfylkingarinnar væri slík að hún þyrfti að koma með „slík gervimál“ inn á þingið. Katrín afhenti ráðherrum ríkisstjórnarinnar hverjum sitt eintakið af jafnréttisáætlun þingsins og sagðist gera þá kröfu að þeir kynntu sér hana vel og gengju með hana á sér svo þeir yrðu sér ekki aftur til skammar. „Og telji ráðherrar ríkisstjórnarinnar sig ekki bundna af samþykktum Alþingis, þá tel ég þá ekki starfi sínu vaxnir,“ sagði Katrín. Fjármálaráðherra sagði þennan málflutning eiga heima úti í hafsauga og sagði þingmenn Samfylkingar aldrei hafa neitt annað fram að færa en „frammíköll, öskur, skvaldur og fliss.“    


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×