Innlent

Auðvelt að klúðra uppeldi hunda

Ekki eru allir á eitt sáttir að banna eigi innflutning á Doberman og Rottweiler-hundum, en hundar þessarar tegundar ollu ótta í Seljahverfinu fyrir rúmri viku þegar þeir rifu í sig kött og veltu barnavagni með barni í. Stefán Jón Hafsteinn borgarfulltrúi sagðist vilja bregðast við þessu með banni á slíkum vígahundum eins og hann kallar það en Albert Steingrímsson, skólastjóri Hundaræktarfélags Íslands, segir borgarfulltrúann augljóslega ekki vita hvað vígahundar eru því þeir eru nú þegar bannaðir á Íslandi. "Það er skýrt í reglugerð frá landbúnaðarráðuneytinu að slíkir hundar séu bannaðir hér á landi. Hinsvegar flokkast umræddir hundar ekki til vígahunda heldur varðhunda sem er ekki það sama. Auðvelt er að klúðra uppeldi á þessum hundum og þarf að sinna vel eftirliti með eigendum þeirra," segir Albert. Hann segir að þegar ráðuneytið tók þá ákvörðun að leyfa innflutning á Doberman og Rottweiler hafi þeim verið bent á þá nauðsyn að herða eftirlit með eigendum hundanna en því hefur ekki verið sinnt. "Mér skilst að það hefði ítrekað verið búið að kvarta undan þessum hundum og fellur það í hlutverk hundaeftirlitsins að bregðast samstundis við. Ef menn hefðu unnið vinnuna sína þar á bæ þá hefði ekki til þessa óhapps komið," segir Albert.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×