Innlent

Rauð ljós auðkenna þyrluáhöfnina

Starfsmenn í þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar hafa fengið rauð ljós í bíla sína til að auðvelda þeim að komast leiðar sinnar í umferðinni. Þegar þyrluáhafnir eru kallaðar út verða þær að hraða sér út á flugvöll, án þess þó að brjóta umferðarreglur. Í tilkynningu gæslunnar segir ljóst að oftast liggi líf við þegar aðstoðar þyrlu Landhelgisgæslunnar sé óskað og geti því verið bagalegt þegar einhver úr áhöfn þyrlunnar lendir í umferðarteppu á leið til flugvallarins. Til þess að ráða bót á þessum vanda ákvað dómsmálaráðuneytið, í samráði við Landhelgisgæsluna og lögregluyfirvöld, að útvega þyrluáhöfninni rauð blikkljós og merki til auðkenningar. Ljósin eru ekki eiginleg forgangsljós heldur þjóna þeim tilgangi að auka öryggi og óska eftir tillitsemi annarra ökumanna. "Einnig er þá auðveldara fyrir lögregluna að koma auga á þyrlustarfsmenn til að aðstoða þá við að komast leiðar sinnar í neyðartilfellum," segir Landhelgisgæslan og hefur eftir starfsmönnum að ljósin hafi miklu breytt, ökumenn sýni meiri tillitsemi en áður og víki fyrir þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×