Innlent

Tjáir sig ekki um rjúpnaveiðibann

Sigríður Anna Þórðardóttir er fyrsti sjálfstæðismaðurinn í stóli umhverfisráðherra. Hún ætlar að nota næstu daga til að heimsækja stofnanir ráðuneytisins en er ekki tilbúin til að lýsa afstöðu sinni til áframhaldandi veiðibanns á rjúpu. Siv Friðleifsdóttir stefnir að því að setjast í ríkisstjórn á næsta ári. Lyklaskipti umhverfisráðherra fóru fram í ráðuneytinu við Tjörnina að afloknum ríkisráðsfundinum á Bessastöðum. Báðir ráðherrar minntu á rjúpu í vetrarbúningi, hvort sem það var af ráðnum hug eður ei, en það fór vel á með þeim þegar ráðherralyklakippan skipti um hendur. Sigríður Anna þakkaði Siv fyrir vel unnin störf sem ráðherra, sagðist taka við góðu búi og óskaði henni velfarnaðar í þinginu. Siv óskaði Sigríði Önnu góðs gengis í ráðuneytinu og sagðist viss um að hún mundi standa sig með miklum sóma. Siv segist gjarna mundi vilja hafa haldið áfram sem ráðherra, og hún segist stolt af því sem hún skilur eftir sig. Hún vill þá helst nefna náttúruvernd og þjóðgarða, t.a.m. sé stærsti þjóðgarður Evrópu að fæðast. Halldór Ásgrímsson hefur boðað breytingar á ráðherraliði Framsóknar á næsta ári og Siv ætlar inn aftur.  Sigríður Anna er fyrsti sjálfstæðismaðurinn sem sest í stól umhverfisráðherra. Þrátt fyrir að hún hafi vitað af því í eitt og hálft ár að í dag myndi hún setjast í þennan stól, þá var hún spör á yfirlýsingar um viðkvæm málefni ráðuneytisins, t.d. rjúpnaveiðibann og náttúruvernd. Um áframhaldandi veiðibann á rjúpu sagðist ráðherrann munu skoða þau mál. Um aukið samstarf og samráð við til náttúruverndarsinna sagði Sigríður að það yrði „bara að koma í ljós“. Sigríður Anna segir að næstu dagar verði annasamir; hún ætli að heimsækja allar stofnanir sem heyri undir ráðuneytið til að fá heildaryfirsýn.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×