Innlent

Skaftafell í 5 þúsund ferkílómetra

Fyrir liggur áætlun um stækkun þjóðgarðsins í Skaftafelli. Hana kynnti Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra á fundi í Skaftafellsstofu í þjóðgarðinum í Skaftafelli í gær. Stækkunin tekur til syðri hluta Vatnajökuls og friðlýsta svæðisins í Lakagígum, en þetta er fyrsta skrefið í stofnun þjóðgarðs sem næði til alls Vatnajökuls í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 26. september árið 2000. Með þessari stækkun verður þjóðgarðurinn í Skaftafelli 4.807 ferkílómetrar og nær til svæðis sem nemur um 57 prósentum af Vatnajökli auk Lakagígasvæðisins. Á fundi í gær skrifuðu fulltrúar Skaftárhrepps og sveitarfélagsins Hornafjarðar undir yfirlýsingu um að þau séu samþykk stækkuninni fyrir sitt leiti og að á næstunni fari fram kynning á henni. Ráðnir verða tveir fastir starfsmenn í stöður landvarða og verður annar þeirra með starfsstöð á Kirkjubæjarklaustri og hinn á Höfn í Hornafirði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×