Innlent

Ráðherra vill endurbætur

Það er fjarri því að Sundabrautin leysi þann umferðarvanda sem er á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og því nauðsynlegt að fara út í framkvæmdir við gatnamótin, að sögn Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Í Fréttablaðinu á miðvikudaginn sagði Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi R-listans og formaður samgöngunefndar, að ekki yrði ráðist í gerð mislægra gatnamóta við Miklubraut og Kringlumýrarbraut á næstu árum því Sundabrautin yrði sett í forgang. Sturla segist fagna því að borgin vilji fara út í gerð Sundabrautar en að hafa verði samráð við öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um forgangsröðunina á svæðinu. "Ég lít nú svo á að þetta útspil Árna verði að skoða í því ljósi að um þetta hefur ekki, að því er ég best veit, verið tekin ákvörðun hjá Reykjavíkurborg eða nágrannasveitarfélögunum, " segir Sturla. "Sundabrautin er risaverkefni sem auðvitað verður tekið í áföngum. Það er óhjákvæmilegt að gera einhverjar endurbætur á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og það verður mjög erfitt að afgreiða samgönguáætlun án þess að taka eitthvert tillit til þeirra aðstæðna sem þar eru. Borgin hefur hins vegar heilmikið um það að segja hvernig skipulagið verður þar, en ég held að það verði erfitt að líta alveg framhjá þeim mikla umferðarþunga sem þar er."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×