Innlent

Gatnakerfi borgarinnar er sprungið

"Það leikur engin vafi á að umferðarþunginn hefur sjaldan verið meiri en nú er," segir Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Reykjavík. Umferðarþunginn á stofnbrautum höfuðborgarinnar eykst ár frá ári og eru flestir vegfarendur sammála um að gatnakerfið í Reykjavík sé endanlega sprungið. Karl Steinar segir áberandi hversu mikið hefur verið um árekstra í höfuðborginni í sumar og haust og segir tvímælalaust að ein meginástæða þess sé sú þunga umferð á morgnana og seinnipart dags þegar ökumenn fara úr og í vinnu. "September hefur verið einn versti mánuðurinn hvað varðar umferðina um árabil og bið hefur orðið á stórum framkvæmdum við stofnbrautir í Reykjavík og brýn þörf orðin á að eitthvað sé gert við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar." Karl Steinar sagði lögreglumenn taka mið af erfiðum gatnamótum þegar mikið liggur við og því hefði ekki enn komið til alvarlegra vandræða vegna þess að lögregla gæti ekki athafnað sig sökum umferðartafa. Birgir Finnsson, hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir að komi til útkalla á annatímum í umferð sé viðbragðstími sjúkra- og slökkviliðs að sjálfsögðu skertur. "Það sem hefur bjargað okkur er að við getum kallað út sjúkra- eða slökkvilið frá þremur stöðum og komi eitthvað fyrir þegar umferð er mikil er tekið tillit til þess þegar ræst er út." Ýmsir hafa haft á orði að þessi síaukni umferðarþungi hljóti að þýða aukna megnun en samkvæmt upplýsingum frá Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur er það ekki raunin. "Það er fulldjúpt í árina tekið að segja að mengun hafi minnkað en hún hefur allavega ekki aukist," segir Lúðvík E. Gústafsson, deildarstjóri hjá stofnuninni. Þar er loftmengun mæld reglulega á nokkrum stöðum í borginni og sýna mælingar að loftmengun hefur ekki aukist. "Mælar sýna að almennt hefur mengun minnkað hin síðari ár og er það að miklu leyti að þakka sparneytnari bílum og auknum loftmengunarbúnaði í þeim sem ekki var áður til staðar. Einnig er svo mikil hreyfing á loftinu þegar heitt er í veðri að agnir safnast ekki saman að ráði. Það verður hins vegar vandamál í vetrarstillum þegar loft hreyfist lítið sem ekkert."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×