Innlent

Sjálfstæðismenn ósáttir

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur eru ósáttir við þá ákvörðun R-listans að setja Sundabrautina í forgang og fresta gerð mislægra gatnamóta við Miklubraut og Kringlumýrarbraut um óákveðinn tíma. "Þetta kemur mér ekki á óvart því R-listinn hefur lengi verið fjandsamlegur í garð mislægra gatnamóta við Miklubraut og Kringlumýrarbraut," segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem situr í samgöngunefnd. "Ef þetta verður reyndin er það afskaplega slæm ákvörðun því hún hefur áhrif á umferðaröryggi í borginni." Kjartan segir að mislæg gatnamót á þessum stað hafi verið sett inn í aðalskipulag þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við völd árið 1993. Minnihlutinn hafi ekki gert athugasemdir við það en eftir að R-listinn hafi komist valda árið 1994 hafi gatnamótin verið tekin út af aðalskipulagi um tíma og nokkur önnur mislæg gatnamót gerð í borginni. Kjartan segir það í raun ótrúlegt því gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar séu ein hættulegustu gatnamót landsins ef ekki þau allra hættulegustu. Kjartan segir sjálfstæðismenn vera mjög hlynnta Sundabrautinni en þeir telji hins vegar af og frá að seinka framkvæmdum við mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar vegna hennar. Sundabrautin leysi ekki þann vanda sem sé á þeim gatnamótum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×