Innlent

Rúmlega sjötíu kindur dauðar

63 kindur drápust og tíu þurfti að lóga eftir að fjárflutningabíll fór út af veginum og valt við Grímu í Reyðarfirði laust fyrir klukkan ellefu í gærmorgun. 253 kindur voru í bílnum, sem sérsniðinn er til fjárflutninga, en að sögn lögreglunnar á Eskifirði er staflað í bílinn á þremur hæðum. Bílstjóra flutningabílsins var komið undir læknishendur, en hann var að sögn lögreglu ómeiddur að mestu, sem og farþegi sem í bílnum var. Aðkoma á slysstað var að sögn lögreglu ekki glæsileg og þurfti að rjúfa þak tengivagnsins til að komast að kindunum og ná þeim út. Slysið átti sér stað þegar flutningabíllinn var að hleypa öðrum bíl fram úr sér. Þá brast vegkanturinn undan þunga bílsins, sem lagðist á hliðina utan vegar. Lögregla segir bílinn nokkuð skemmdan, en þó ekki ónýtan. Síðdegis í gær var búið að smala fénu sem lifði inn á tún og koma því sem drapst til urðunar, en enn var átt við að koma bílnum upp á veg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×