Innlent

Dorrit í Straumsvík

"Ég er til í að gera hvað sem er til að aðstoða íslensk fyrirtæki sem eftir því óska", segir Dorrit Moussaief. Hún heimsótti í dag álverið í Straumsvík og sagði þar mikið um góðan kvenkost. Í viðtali við Sunday Times um helgina ræddi Dorrit Moussaief, forsetafrú, hlutverk sitt og var sagt í greininni, að hún legði hart að vinum sínum að fjárfesta í íslenskum banka- og lyfjafyrirtækjum sem og í orkugeiranum. Tengslin við atvinnulífið voru augljós í dag, þegar Dorrit heimsótti álver Alcoa í Straumsvík. Hún segir að Rannvæg Rist hefði verið svo væn að bjóða henni og það hefði lengi staðið til. Það sem hafi vakið hrifningu hennar hafi verið hve margar konur ynnu í álverinu og hvað þær væru ánægðar. Hún segir framleiðslu álversins betri en hjá nokkru öðru í heiminum og að slysatíðnin væri mjög lág. Hún sé því góð fyrirmynd fyrir önnur fyrirtæki um hvernig hægt sé að gera hlutina á Íslandi. Hún segir að menn ættu að koma og læra af Rannveigu Rist, því hún væri bæði ótrúleg og falleg. Dorrit segist reiðubúin til að gera hvað sem hún getur til að hjálpa góðum íslenskum fyrirtækjum til að ná augum og eyrum umheimsins. En hvernig sér hún hlutverk sitt sem tengiliður fjárfesta og íslenskra fyrirtækja, eins og lesa má út úr greininni í Sunday Times? "Ekki trúa öllu sem er sagt í bresku blöðunum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×