Innlent

Eldur í blokk

Eldur kom upp á 3. hæð í 12 hæða blokk að Austurbrún 6 í Reykjavík í gærkvöldi. Slökkviliðið var kallað á staðinn um klukkan 23 eftir að nágrannar íbúðarinnar sáu eld út um gluggann. Reykkafarar voru sendir inn í íbúðina og fundu þar eldri konu á gólfinu. Hún var flutt á slysadeild Landspítalans. Þar fengust þær upplýsingar í morgun að hún hefði fengið reykeitrun en að líðan hennar nú væri eftir atvikum góð. Að sögn varðstjóra slökkviliðsins var mikill svartur reykur í íbúðinni, en vel gekk að slökkva eldinn og reykræsta og var slökkvistarfi lokið um klukkan hálf eitt. Aðrar íbúðir í blokkinni voru ekki í hættu, en nokkur reykur dreifði sér um ganga hússins. Eldsupptök eru ókunn en íbúðin er mikið skemmd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×