Innlent

Sex sækja um Hæstaréttardómara

Að minnsta kosti sex sækja um stöðu Hæstaréttardómara í stað Péturs K. Hafstein, sem lætur af embætti 1. október, en frestur til að sækja um stöðuna rann út um helgina. Nöfn þeirra sem sækja um stöðu Hæstaréttardómara verða gerð opinber klukkan 4 í dag. Fréttastofan hefur áður greint frá því að á meðal umsækjenda eru Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og lagaprófessor, Eiríkur Tómasson, lagaprófessor, Hjördís Hákonardóttir, dómstjóri, og Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari. Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, og Eggert Óskarsson, héraðsdómari, sæki einnig um stöðuna. Jón Steinar skilaði inn umsókn langfyrstur, eða meira en viku áður en frestur rann út. Innan lögmannastéttar var það útspil skilið sem vísbending um að Jón Steinar yrði fyrir valinu. Nú, þegar hópur umsækjenda er skoðaður eru þó færri sem vilja leggja hatt sinn að veði en áður, hvað þetta varðar. Eiríkur og Hjördís sóttu um stöðu hæstaréttardómara í fyrra, en þá skipaði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, Ólaf Börk Þorvaldsson í embættið. Þá var Eiríkur annar þeirra sem Hæstiréttur taldi heppilegastan í stöðuna, en hinn var Ragnar Hall, sem gagnrýndi á dögunum í fréttum Bylgjunnar hvernig staðið var að málum í fyrra. Eiríkur, Ragnar og Jakob Möller vísuðu málinu til umboðsmanns Alþingis, sem gerði athugasemdir við hvernig skipað var í stöðuna. Björn Bjarnason gat þess á þeim tíma að hann myndi taka mið af athugasemdum umboðsmanns, en ekki náðist í Björn í morgun til að fá nánari svör um hvernig hann hyggðist gera það. Hjördís Hákonardóttir kærði skipan Ólafs Barkar í fyrra til kærunefndar jafnréttismála, sem komst að þeirri niðurstöðu að á henni hefðu verið brotin jafnréttislög. Ekki hefur enn verið ákveðið hverjar verða lyktir þeirrar niðurstöðu, svo sem, hvort hún verður kærð til dómstóla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×