Innlent

Lausn á næstu dögum?

Reynt verður að finna lausn á vanda eldri nemenda sem ekki komast inn í framhaldsskóla á næstu dögum segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra. Hún segir ekki komið á hreint hve margir nemendur fái ekki inni í skólunum í haust en æskilegast að allir sem þangað eigi erindi komist inn. Töluvert fleiri nemendur fá ekki inngöngu inn í framhaldsskóla landsins nú í haust en verið hefur undanfarin ár. Allt eru þetta nemendur sem ekki hafa nýlokið við grunnskólapróf heldur hafa tekið sér tímabundið hlé frá námi. Í Fjölbrautaskólanum við Ármúla, Menntaskólanum við Hamrahlíð og Fjölbrautaskólanum í Breiðholti hefur fleiri nemendum verið hafnað um inngöngu í haust en venjan er. Að sögn skólameistara skólanna fjögurra hafa þeir þurft að hafna allt frá tuttugu og yfir hundrað nemendum sem þeir hefðu viljað taka við ef húsnæði væri fyrir hendi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segist ekki vita á þessari stundu hvað það séu margir sem eftir standa. Hún segir að reynt verði að koma öllum sem ekki fengu inngöngu inn þar sem hægt sé. Þorgerður vonar að málið leysist á næstu dögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×