Innlent

Samkeppni um brúðkaupstónlist

Dómkórinn í Reykjavík hefur ákveðið að efna til verðlaunasamkeppni um tónlist til flutnings við hjónavígslur. Leitað er eftir sönglögum sem höfða til ungs fólks. Tónmenntasjóður Þjóðkirkjunnar veitti nýlega styrki til nýsköpunar og ákvað Dómkórinn að nota það fé sem hann fékk úthlutað til að auðga úrval kirkjulegrar, íslenskrar brúðkaupstónlistar. Í tilkynningu frá kórnum segir að prestar landsins lendi af og til í vanda þegar brúðhjón standa frammi fyrir því að velja sér lag til flutnings við vígsluna. Þannig hefur prestur einn frá því sagt að hjónaefni hafi viljað láta flytja „Please release me“ sem er þó augljóslega ekki í takti við tilefnið. Leitað er eftir lögum fyrir einsöngvara og hljóðfæri eða fyrir kóra. Prestar Dómkirkjunnar – sr. Jakob Hjálmarsson og sr. Hjálmar Jónsson – geta verið tónskáldum innan handar með að finna hentuga sálmatexta eða kvæði. Einnig er hægt að leita ráða hjá Marteini H. Friðrikssyni dómorganista. Skilafrestur í samkeppninni er til 15. október nk. en laugardaginn 13. nóvember stendur til að flytja verðlaunaverkin, auk annarrar brúðkaupstónlistar. Verða tónleikarnir hljóðritaðir og út gefinn sýnidiskur með tónlistinni en með því er leitast við að gera verðandi brúðhjónum auðveldara að velja tónlist við hjónavígsluna. Ábendingar um eldri brúðkaupslög eða sálma eru einnig vel þegnar. Verðlaun verða veitt fyrir þau verk sem valin verða til flutnings á tónleikunum þann 13. nóvember.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×