Innlent

Ísland vel á vegi statt

Cherie Blair segir Ísland vel á vegi statt í jafnréttisbaráttu kynjanna en þó sé hlutur kvenna í æðstu stöðum dómskerfisins enn of rýr hér á landi. Cherie hóf fyrirlesturinn á því að ræða hve ánægð hún væri með för sína til Íslands og hve veðrið hér væri frábært. En hún var hrifin af fleiru en veðrinu því hún sagði hérlend lög um fæðingarorlof frá árinu 2001 vera til fyrirmyndar fyrir önnur lönd. Áhrif þess að karlar færu í fæðingarorlof væri gríðarlega mikilvæg fyrir jafnrétti kynjanna. Hún sagði Breta aðeins geta látið sig dreyma um það fæðingarorlofskerfi sem hér ríki en vonaði að það myndi breytast í framtíðinni. Cherie sagði Ísland hafa komið sér á heimskortið í jafnréttismálum þegar Vigdís Finnbogadóttir var kosin forseti fyrst kvenna í heiminum. Enn stæðu konur hér á landi höllum fæti þegar kæmi að æðstu stöðum dómskerfisins og samfélagsins alls. Til dæmis væru aðeins tveir af níu hæstaréttardómurum konur og aðeins þrír af 30 sendiherrum Íslendinga. Almennt taldi Cherie nauðsynlegt að breyta ímynd lögfræðinga sem miðaldra sjálfselkra karla. Bæði þyrfti að fjölga konum í æðstu stöðum svo og lituðu fólki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×