Innlent

Óformlegir fulltrúar embættisins

"Fyrrum forsetar komast aldrei undan því að hafa verið forsetar og stundum er ætlast til þess að þeir komi að einhverjum málum sem slíkir, en þeir eru að sjálfsögðu ekki fulltrúar forsetaembættisins, né hafa neinum skyldum að gegna við það," segir Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti íslands. "Ég harma það hvernig afstaða mín hefur verið afflutt síðustu daga. Það var ekki né er ætlun mín að taka afstöðu opinberlega í viðkvæmum fjölmiðlamáli," segir hún og vísar þar til fréttaflutnings af ákvörðun hennar um að koma ekki fram á Grímunni, verðlaunahátíð leikhúsanna. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, er sama sinnis um stöðu fyrrverandi forseta. Hans mat er þó að neitun um þátttöku í Grímunni beri vott um nokkra viðkvæmni. "Ég hefði ekki talið það neitt vandamál fyrir Vigdísi Finnbogadóttur að koma fram, jafnvel þó að stríð væri í íslenskri pólitík og forseti Íslands kæmi þar við sögu. En þetta er hennar mat og út af fyrir sig ekkert við því að segja." Skýringuna segir Gunnar Helgi kunna að liggja í ólíkum viðhorfum Vigdísar og Ólafs Ragnars til embættisins. "Ólafur Ragnar hefur bæði að gjörðum og yfirlýsingum lýst öðrum hugmyndum um forsetaembættið en þeim sem birst hafa í yfirlýsingum og gjörðum Vigdísar," sagði hann og vísaði til hugmynda Vigdísar um ópólitískt forsetaembætti. "Því þarf ekki að vera neitt óeðlilegt við að hún haldi sig við sína hugmynd um embættið og telji af þeim ástæðum rétt að halda sig til baka."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×