Innlent

Stakk hann þrisvar

Grétar Sigurðarson, einn sakborninga í líkfundarmálinu, játaði fyrir héraðsdómi í dag, að hafa stungið lík Vaidasar Jusevisiusar þrisvar sinnum, en ekki fimm sinnum, eins og hann er ákærður fyrir. Grétar neitaði að öðru leyti sök í málinu, en það var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur kl. 14 í dag.

Aðrir sakborningar í málinu, Jónas Ingi Ragnarsson og Tómas Malakauskas, neituðu allri sök. Þeir þrír voru allir ákærðir fyrir innflutning á fíkniefni, fyrir brot gegn lífi og líkama með því að koma Vaidasi ekki til hjálpar og fyrir ósæmilega meðferð á líki hans. Þá var Grétar ákærður fyrir brot á vopnalögum.

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Jónasar Inga, krefst þess að aflað verði gagna um heilsufar Vaidasar áður en hann kom til Íslands, þar sem það kunni að varpa ljósi á meðvirkandi þætti málsins. Undir þetta tóku aðrir verjendur. Aðalmeðferð málsins fer fram 18. og 19. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×