Innlent

Skilti sem vara við ögðum

Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands, segir að sem fyrr verði sett upp skilti við Landmannalaugar þar sem fólk verði varað við hættunni sem stafað getur af blóðögðulifrum. "Við höfum bent fólki á þetta með ýmsum hætti þarna innfrá. Við höfum ekki fundið leiðir til að útrýma blóðögðulirfunum en þó gert tilraunir til að halda þessu niðri með því að hreinsa laugina," segir Ólafur og vísar til þess að í samráði við Umhverfisstofnun hafi verið hreinsað upp slý í Landmannalaugum. "Ekki losnum við við endurnar og treystum okkur ekki til að ráðast til atlögu við náttúruna til að uppræta millihýsilinn," sagði hann og taldi blóðögður í Landmannalaugum komnar til að vera. Ólafur bætir við að fram hafi komið hugmyndir um að útbúa mætti öðruvísi baðaðstöðu í Landmannalaugum. "Þetta eru ekki hugmyndir Ferðafélagsins og hefur ekki einu sinni verið rætt við Umhverfisstofnun, úti í bæ hef ég heyrt hugmyndir um að setja upp manngerða laug með náttúrulegu umhverfi, sem svo mætti hleypa úr og skola. Þar með losnaði maður alveg við þennan millihýsil," sagði Ólafur, en ítrekaði að ekki yrði ráðist í neinar framkvæmdir í Landmannalaugum nema í góðri samvinnu við Umhverfisstofnun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×