Innlent

Leitað að samverkamönnum

Ekki er hægt að greina frá framvindu rannsóknar í máli ófrískrar konu á þrítugsaldri, sem handtekin var á föstudag með 5.005 E-töflur í bakpoka, þar sem hún er í einangrun, segir Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli. Hann segir rannsóknina beinast að því að upplýsa hverjir samverkamenn konunnar séu. Hún situr í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni. Konan nýtur fullra réttinda sem íbúi Schengen-svæðisins, segir Georg Lárusson, forstjóri Útlendingastofnunarinnar. Hann segir að ófætt barn hennar fái sömu meðferð og börn annarra erlendra ríkisborgara sem fæðast hér á landi. Georg segir að barnið yrði í umsjá barnaverndaryfirvalda óski móðirin þess. "Það er öruggt mál að barnið yrði ekki sent frá móðurinni ef hún afplánar hér á landi," segir Georg. Hann segir það háð mati barnaverndaryfirvalda hvort fjögurra ára barn konunnar fái að koma til landsins óski móðirin þess. Guðrún Frímannsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, segir að kannaðar séu aðstæður í hverju og einu tilfelli. Ekki sé hægt að svara á þessu stigi hverjir málavextir ófrísku konunnar hugsanlega yrðu í meðferð barnaverndaryfirvalda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×