Innlent

Dómur kveðinn upp á morgun

Dómur í meiðyrðamáli Jóns Ólafssonar, fyrrverandi aðaleiganda Norðurljósa, gegn Davíð Oddssyni forsætisráðherra verður kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Jón Ólafsson stefndi Davíð skömmu fyrir áramót vegna ummæla sem féllu í viðtali við Ríkisútvarpið eftir að Jón hafði selt eigur sínar hér á landi með milligöngu Kaupþings-Búnaðarbanka. Þar sagði Davíð meðal annars að þetta hefði allt þann brag að menn væri að kaupa og selja þýfi. Kvaðst forsætisráðherrann hafa þá tilfinningu að þar með væri auðvelt að skjóta undan fjármunum þannig að ríkisvaldið ætti erfiðara að ná til sín fjármunum ef skattaálagning yrði í samræmi við skattrannsókn. Davíð sagði um skattrannsóknina að það blasi við að maður nokkur sé mesti skattsvikari Íslandssögunnar og sama dag og skattrannsóknastjóri skili af sér rannsókn standi þessi banki fyrir því að losa hans eignir héðan. Jón Ólafsson krefst þess að ummælin verði dæmd dauð og ómerk og að forsætisráðherra verði dæmdur til greiðslu sektar og þriggja milljóna króna í miskabætur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×