Innlent

Skuldum vafin ungmenni

Þess eru dæmi að ungmenni undir tvítugu skuldi vel á þriðju milljón króna og að sama upphæð sé í vanskilum, samkvæmt upplýsingum frá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Fólki í þessum aldurshópi sem þarf að leita aðstoðar hjá ráðgjafarstofunni hefur farið fjölgandi á milli áranna 2002 og 2003, samkvæmt ársskýrslu stofunnar. Árið 2002 ar það 0,89% af heildarfjölda umsækjenda, en 1,12% árið 2003. Meðaltalsskuldir þessa aldurshóps voru ríflega 1 milljón króna og meðaltalsvanskil 498 þúsund krónur. Mestu skuldir einstaklings voru 2.5 milljónir og mestu vanskil einstaklings voru 2.4 milljónir. Algengustu skuldirnar voru bankalán, en meðaltal þeirra er 985.978 kr. Greiðslukortaskuldir námu að meðaltali rúmlega 72.000 kr. Þá voru 30% af þessum hópi með bílalán og hjá þeim var meðaltalið 740.268 kr. Bílalánsfólkið var einnig með bankalán til viðbótar. Um 60% voru í leiguhúsnæði, en um 40% í foreldrahúsum. Atvinnulaus voru 60%. Hópurinn skiptist þannig að 75% voru konur og 25% karlar. 23% af konunum voru einstæðar mæður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×