Innlent

Kaupa 70% í þekktri verslanakeðju

Íslenskir fjárfestar hafa keypt tæp 70 prósent í Magasín du Nord, einni þekktustu verslanakeðju Danmerkur. Danskir fjölmiðlar segja kaupverðið vera tæpa 6 milljarða króna og fimmtíu prósentum yfir markaðsgengi. Danskir fjölmiðlar fara mikinn yfir yfirtöku íslenskra fjárfesta á Magasín du Nord einni sögufrægustu verslunarkeðju Danmerkur. Fjárfestarnir eru Baugur, Straumur og B2B holdings, sem rekur Dómínós pizzur á Norðurlöndum. Íslendingarnir hafa keypt 69 prósent hlutabréfa og reikna með að eignast 12 prósent til viðbótar á næstunni. Í framhaldinu verður öðrum hluthöfum gert yfirtökutilboð og félagið í framhaldinu tekið af markaði. Rekstur Magasín du Nord hefur gengið erfiðlega síðustu ár, en Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs segir í samtali við danska fjölmiðla að hann ætli að blása til sóknar. Hann boðar að einhverjum verslunum keðjunnar verði lokað og eru þar nefndar verslanir í Óðinsvéum, Árósum, Álaborg og víðar. Jón Ásgeir segist hafa haft augastað á keðjunni í sex til tólf mánuði og hann boðar samstarf Magasíns við bresku verslunarkeðjuna Debenhams, en Jón rekur þær verslanir á Norðurlöndum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×