Innlent

29 ára Breti í haldi lögregu

29 ára gamall Breti er í haldi lögreglunnar í Keflavík grunaður um að hafa valdið dauða 33 ára dansks hermanns í nótt. Hinn látni kom til landsins í gærkvöldi með herflugvél danska hersins og átti að gista ásamt flugáhöfninni á hóteli í Keflavík. Hann fór ásamt félögum sínum út að skemmta sér í miðbæ Keflavíkur í gærkvöld. Í tilkynningu frá lögreglunni í Keflavík segir að samkvæmt frásögnum vitna hafi hinn grunaði slegið hinn látna einu höggi á höfuðið framan við bar á veitingastað. Maðurinn var fluttur meðvitundarlaus á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem hann lést skömmu síðar. Bretinn, sem búsettur er hér á landi mun hafa farið rakleitt út af veitingastaðnum eftir árásina. Hann var handtekinn á heimili sínu skömmu síðar og virtist hann þá talsvert mikið ölvaður. Þegar lögregla kom á staðinn var búið að færa hinn látna inn í starfsmannaðstöðu skemmtistaðarins þar sem sjúkraflutningamenn voru að gera á manninum endurlífgunartilraunir. Ekkert blóð var sjáanlegt á vettvangi eða á hinum látna, en nákvæm rannsókn á vettvangi hefur ekki farið fram. Málið er sem sagt á frumrannsóknarstigi og segir lögregla að ekki sé hægt að gefa nánari upplýsingar um atburðinn fyrr en eftir helgina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×