Innlent

Breti grunaður um manndráp

29 ára gamall breskur ríkisborgari er í haldi lögreglu grunaður um að hafa valdið dauða þrjátíu og þriggja ára dansk hermanns á skemmtistað í Keflavík í nótt. Atburðurinn átti sér stað á veitingastaðnum Traffic við Hafnargötu í Keflavík. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Keflavík barst henni tilkynning laust upp úr klukkan fjögur í nótt þess efnis að danskur hermaður væri slasaður á veitingastaðnum. Þegar lögregla kom á staðinn var búið að færa hann inn í starfsmannaðstöðu skemmtistaðarins þar sem sjúkraflutningamenn reyndu endurlífgun. Hann var fluttur meðvitundarlaus á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem hann var úrskurðaður látinn skömmu síðar. Hinn 33. ára danski hermaður hafði komið til landsins í gærkvöldi með herflugvél danska hersins en áhöfnin átti að gista á hóteli í Keflavík. Fór hermaðurinn í gærkvöldi með félögum sínum á skemmtistaðinn og bera vitni að þar hafi hann verið sleginn af einum gesta staðarins framan við bar veitingastaðarins. Ekkert blóð var sjáanlegt á vettvangi eða á hinum látna. Sá sem grunaður er um verknaðinn er 29 ára gamall breskur ríkisborgari sem er búsettur hér á landi. Mun hafa slegið hinn látna einu höggi á höfuðið og farið síðan rakleitt út af veitingastaðnum. Hann var handtekinn á heimili sínu skömmu síðar. Virtist hann þá talsvert mikið ölvaður, að sögn lögreglu. Búist er við að farið verði fram á gæsluvarðhald yfir manninum í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×