Innlent

Sakar Vilhjálm um róg

Í bókun sem Þórólfur Árnason, fráfarandi borgarstjóri, lagði fram á borgarráðsfundi sem hófst klukkan ellefu í morgun, sakar hann Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, oddvita sjálfstæðsimanna í borgarstjórn, um vísvitandi róg. Hann vitnar þar til þeirra ummæla Vilhjálms í DV að það liggi beint við að hann fái biðlaun út kjörtímabilið, og miðað við að borgarstjóri sé á sömu kjörum og forsætisráðherra, og að 19 mánuðir eru eftir af kjörtímabilinu, hverfi Þórólfur á braut með 20 milljónir króna. Þórólfur segir að Vilhjálmi hafi mátt vera ljóst á hvaða kjörum hann var ráðinn og að hann njóti sömu almennra réttinda og aðrir starfsmenn Reykjavíkurborgar. Biðlaun skapist eftir tvö ár í starfi og eigi því ekki við um fráfarandi borgarstjóra sem hóf störf 1. febrúar 2003. Miðað við reynslu Vilhjálms af sveitarstjórnarmálum sé hann öllum hnútum kunnugur í stjórnsýslu sveitarfélaga, og Reykjavíkurborgar sérstaklega, og því sé ljóst að ofangreind ummmæli hans falli gegn betri vitund og séu vísvitandi rógur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×