Innlent

Parísarhjól í Laugardalinn

Parísarhjól í Laugardalinn og heilsulón á Hellisheiði eru meðal atriða í verkefna- og aðgerðaráætlun Höfuðborgarstofu sem kynnt var í dag. Hugmyndir um útrás íslenskra listamanna voru einnig kynntar sem og nýtt slagorð fyrir borgina og markaðsverkefni. Vinna við stefnumótun Reykjavíkurborgar í ferðamálum hófst í hitteðfyrra og hefur verið leitað til hátt á annað hundrað aðila sem tengjast ferðaþjónustu með fjölbreyttum hætti. Starfað var í níu hópum og fékk hver hópur afmörkuð verkefni og hafa allir hóparnir nú skilað af sér. Í könnun sem gerð var meðal erlendra ferðamanna fyrir Höfuðborgarstofu fyrstu fjóra mánuði ársins kemur fram að þeir eru almennt mjög ánægðir með dvöl sína í Reykjavík og hrifnir af næturlífinu, sundlaugunum og dagsferðum út fyrir borgina. 93% ferðamannanna sögðu borgina frábæra en aðeins 7% prósent sögðu hana sæmilega. Tæplega helmingur fór í búðir, rúm 40% í dagsferðir og álíka fjöldi kynnti sér næturlífið. Þrjátíu og sjö prósent fóru í sund og 23% ferðamanna í Reykjavík heimsóttu sýningar eða söfn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×