Innlent

Vestasti oddinn laðar að

Sú staðreynd að vestasti oddi Evrópu skuli vera í Vesturbyggð skilar erlendum ferðamönnum nú þegar í stríðum straumum þangað. Á þessum grunni vonast sveitarfélagið til að gera ferðaþjónustu að annarri helstu stoð atvinnulífsins. Látrabjarg er ekki aðeins vestasti oddi Íslands heldur útvörður Evrópu í vestri. Þessi landfræðilega staðreynd er að mati ráðamanna Vesturbyggðar verðmæt markaðsímynd sem nota má til að byggja upp vaxandi ferðaþjónustu. Guðmundur Guðlaugsson, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segir að bara það að vestasti oddi í Evrópu sé á svæðinu laði að fullt af fólki. Hann segir að einungis vanti gistiaðstöðu og afþreyingu fyrir fólkið Sérlegur ráðgjafi Vesturbyggðar og Tálknafjarðar í atvinnu- og ferðamálum, Árni Johnsen, lagði nýlega fram um áttatíu hugmyndir til viðbótar hugmyndum sem heimamenn voru sjálfir að vinna að í því skyni að gera þessar vestustu byggðir Íslands að enn áhugaverðari kosti fyrir ferðamenn. Guðmundur segir að ansi mörg verkefni séu í bígerð og verið sé að hraða þeim eins og kostur sé. Fá svæði á landinu hafa mátt þola jafnmikla fólksfækkun á undanförnum áratugum og Vestur-Barðastrandarsýsla. Því vonast menn til koma gera ferðaþjónustu að annarri helstu stoð atvinnulífsins við hlið sjávarútvegs í framtíðinni. Guðmundur segir að það sé nauðsynlegt að vinna úr því mikla sem svæðið hafi upp á að bjóða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×