Innlent

Afbrýðisemi leiddi til höggsins

Maðurinn sem grunaður er um að vera valdur að dauða danska hermannsins í Keflavík í fyrrakvöld var látinn laus í dag. Lögregla segir málið upplýst og að játning mannsins liggi fyrir. Kona sem stóð við hliðina á Dananum þegar hann var kýldur segir að afbrýðisemi sé rót þessa harmleiks. Danskur hermaður lést í fyrrinótt eftir að hafa verið sleginn einu höggi í andlitið inni á skemmtistaðnum Traffic í Keflavík. Sá sem höggið veitti er 29 ára gamall Skoti sem búsettur hefur verið hér á landi um nokkura ára skeið. Lögreglan í Keflavík handtók manninn sömu nótt og var hann í gær úrskurðaður í tveggja sólarhringa gæsluvarðhald. Lögreglan hefur tekið skýrslur af um tug vitna sem voru á skemmtistaðnum þegar atburðurinn átti sér stað, og segir að atburðarásin liggi nú ljós fyrir. Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að maðurinn hafi skýlaust játað að hafa kýlt Danann, sem hét Flemming Tolstrup, en vill ekki fara í smáatriðum yfir það sem gerðist. Hann segir þó ljóst að ekki hafi verið ásetningur mannsins að bana Tolstrup. Dagný Ósk Arnarsdóttir stóð við hlið Danans þegar hann var sleginn. Hún segir tvo Dani hafa verið að ræða við sig og eiginkonu þess sem höggið veitti. Afbrýðisemi hafi komið upp hjá hinum grunaða og hann hafi í kjölfarið kýlt hinn látna. Hún segir að maðurinn hafi einungis fengið eitt högg í andlitið, hnigið niður og misst meðvitund þegar í stað. Hún ásamt félaga Danans reyndu þá vekja hann til meðvitundar, en án árangurs. Hún segir að þegar hún hafi tekið undir höfuð Danans hafi hún fundið að eitthvað mikið væri að. Dagný segist hafa orðið fyrir miklu áfalli í kjölfarið og lítið hafa sofið síðan. Henni var ekki boðin nein áfallahjálp en leitaði sjálf aðstoðar á heilsugæslustöðinni í dag og segist þar hafa átt gott samtal við lækni og fengið töflur til að geta sofið. Dagný segist sannfærð um að illur ásetningur hafi ekki legið að baki þessa verknaðar, afbrýðisemi hafi bara rænt manninn dómgreind. Hún segir rétt að fólk hafi það í huga að eitt högg geti haft afar alvarlegar afleiðingar. Betra væri að hugsa aðeins áður en hnefinn er reiddur til höggs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×