Innlent

Óviðeigandi að svara segir Björn

Dómsmálaráðherra segir óviðeigandi að svara því hvort hann ætli að fara að tilmælum umboðsmanns Alþingis við ráðningu nýs hæstaréttardómara.  Frestur til að sækja um stöðu Hæstaréttardómara rann út á miðnætti í gær. Nöfn umsækjenda verða birt á mánudag en þegar er vitað að lagaprófessorarnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Eiríkur Tómasson sækjast eftir stöðunni, svo og héraðsdómararnir Hjördís Hákonardóttir, Eggert Óskarsson og Allan Vagn Magnússon. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir stöðuna hafa verið auglýsta eins og venja sé til. Hann ætli ekki að tjá sig neitt um skipan hæstaéttardómara á þessu stigi málsins enda væri slíkt óviðeigandi. Hann svaraði því þess vegna ekki í dag hvort sóst væri eftir ákveðnum hæfileikum eða þekkingu sem ekki væru tilgreindir í auglýsingu líkt og í tilfelli Ólafs Barkar Þorvaldssonar. Dómsmálaráðherra rökstuddi þá ákvörðun sína að ráða Ólaf Börk Þorvaldsson í embætti að hann hefði verið ráðinn á grundvelli þekkingar sinnar í Evrópurétti en það kom öðrum umsækjendum gersamlega í opna skjöldu. Samkvæmt úrskurði Umboðsmanns alþingis í máli umsækjendanna Eiríks Tómassonar og Ragnars H. Hall, sem Hæstiréttur taldi hæfasta til að gegna starfinu, hefði dómsmálaráðherra borið að tilgreina sérstaklega þá þekkingu sem sóst var eftir þegar starfið var auglýst í samræmi við lög um dómstóla. Hæstiréttur hefði ennfremur þurft að leggja mat á hæfni annarra umsækjenda með tilliti til þessara sérstöku óska ráðherrans, en annað brýtur í bága við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Dómsmálaráðherra sagði seinna á Alþingi að hann myndi skoða álit umboðsmanns alvarlega en sagði líka að hann væri ósammála álitinu og teldi sig ekki hafa brotið lög með ráðningunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×