Innlent

Stærsta hlaup síðan 1996

Hlaupið nú er það stærsta sem komið hefur í Skeiðará eftir hamfarahlaupið 1996. Helgi Björnsson jöklafræðingur telur að hlaupinu verði lokið seinnipartinn á morgun. Virkasta eldstöð Íslands lætur enn og aftur á sér kræla, í Grímsvötnum á Vatnajökli, og strókurinn sást víða á Austurlandi. Sérfræðingar í jarðeldum, jöklum og vatnavöxtum búast þó ekki við hamfarahlaupi að þessu sinni. Helgi Björnsson jöklafræðingur segir hlaupið nú það stærsta sem komið hefur í Skeiðará eftir hamfarahlaupið 1996. Þá skemmdist stíflan svo að lítið hefur getað safnast af vatni miðað við það sem áður var. Hlaup í Skeiðará létti á þrýstingnum svo að tappinn sem hélt kvikunni niðri lyftist og hún ruddist upp á yfirborðið, gegnum um það bil 150 metra þykka íshellu. Eldgosið er nokkurn veginn á því svæði sem gaus 1934 og 1983, litlu sunnar og vestar en gosið 1998. Helgi segir heppilegt við gosið núna að það bræði lítið af ís vegna staðsetningarinnar og bæti því litlu við hlaupið. Annað hefði verið uppi teningnum ef upptökin hefðu verið norðan við Grímsvötn líkt og 1996. Grímsvötn hafa nú þegar tæmt sig að helmingi og verða að líkindum búin að tæma sig síðdegis á morgun að sögn Helga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×