Innlent

Villtust við Heklurætur

Tveir menn sem gengið höfðu á Heklu á laugardag óskuðu aðstoðar við að komast að bíl sínum, á öðrum tímanum í fyrrinótt. Flugbjörgunarsveitin á Hellu var kölluð út og kom mönnunum til hjálpar og komust þeir að bíl sínum heilir á húfi. Mennirnir lögðu af stað á Heklu um klukkan tvö á laugardag og áætluðu að vera komnir til baka áður en myrkur skylli á og voru því ekki með vasaljós meðferðis. Bíl sínum lögðu þeir frekar langt frá rótum fjallsins sem varð til þess að ferð þeirra varð lengri en áætlað var í fyrstu. Þegar mönnunum varð ljóst að þeir finndu ekki leiðina að bílnum ætluðu þeir að bíða af sér myrkrið og fara aftur af stað í birtingu. Þeim fór hins vegar að kólna þegar líða tók á nóttina og hringdu í neyðarlínuna og óskuðu aðstoðar. Björgunarsveitarbílar og mannskapur frá Flugbjörgunarsveitinni á Hellu fór að Suðurbjöllum við Næfurholtshraun en þaðan er vinsæl gönguleið að Heklu og hefur áður þekkst að ókunnugir hafi villst þar. Þar kveiktu björgunarsveitarmenn á öflugum kösturum og gátu mennirnir gengið að ljósinu og komust þannig til baka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×