Innlent

Vika í verkfall

Engin hreyfing er komin á samninga grunnskólakennara og sveitarfélaganna en vika er í boðað verkfall. Líkt og síðustu daga hafa samninganefndir grunnskólakennara og sveitarfélaganna fundað í húsakynnum ríkissáttasemjara um helgina, án teljandi árangurs. Raunar hefur lítið gerst frá því í vor þegar kennarar lögðu fram kröfur um launahækkanir og lækkun á kennsluskyldu sem hefðu í för með sér ríflega 40 prósenta kostnaðaraukningu fyrir sveitarfélögin. Sveitarfélögin lögðu þá fram tillögur sem hefðu þýtt sautján prósenta kostnaðaraukningu. Þá kom yfirlýsing frá kennurum um lokasamning sem þýddi 35 prósetna kostnaðarauka en það er upphæð sem hleypur á milljörðum. Formaður félags grunnskólakennara, Finnbogi Sigurðsson, segir að meðal annars sé stefnt að því að grunnlaun umsjónarkennara, eldri en þrjátíu ára, verði 250 þúsund krónur í lok samningstímans. Byrjarlaun eru nú um 180 þúsund krónur. Vinnuskylda grunnskólakennara er að jafnaði 40 tímar á viku en 43 þegar skólar eru starfandi. Þannig vinna kennarar af sér frídaga. Þeir vilja halda sömu vinnuskyldu en lækka kennsluskyldu til að sinna þeim störfum sem kennslunni fylgja og eru sífellt að verða viðameiri. Kennslustundir grunnskólakennara eru nú 28. Þeir vilja að þær verði 26 sem þýddi að fjölga þyrfti kennurum við skólana. Þrátt fyrir að breitt bil sé að milli 17 prósenta og 35 prósetna kostnaðarauka og vika sé í boðað verkfall tekur formaðurinn fram að margt geti gerst á stuttum tíma. Menn væru jú að tala saman og töluðu sama tungumálið. Þrátt fyrir að engin formleg tilboð hafi verið lögð fram telur ríkissáttasemjari ekki tímabært að hann skerist í leikinn með miðlunartillögu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×