Lífið

As We Grow hrósað í blaðinu El Mundo

Ugla Egilsdóttir skrifar
Gréta Hlöðversdóttir, María Ólafsdóttir og Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir.
Gréta Hlöðversdóttir, María Ólafsdóttir og Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir. Mynd/ Vigfús Birgisson
Í grein í blaðinu El Mundo var íslenska fyrirtækinu As We Grow hrósað fyrir að framleiða barnavörur úr alpakkaull í samstarfi við framleiðslufyrirtæki í Perú sem koma vel fram við starfsfólk sitt.

As We Grow var talið upp með þremur öðrum fyrirtækjum sem framleiða líka barnavörur úr perúskri alpakkaull, eitt í New York, annað í Noregi og hið þriðja í París.

Gréta Hlöðversdóttir er ein af stofnendum As We Grow.

„Þessi fyrirtæki sem við höfum verið að vinna með hafa fengið viðurkenningar fyrir góðan aðbúnað og kjör starfsfólksins,“ segir Gréta.

„Við erum frumkvöðlafyrirtæki, og grein eins og þessi í El Mundo skiptir miklu máli fyrir okkur. Hún vekur athygli á okkur, og mörg framleiðslufyrirtæki fengu áhuga á að vinna með okkur eftir umfjöllunina.

Við stofnuðum fyrirtækið 2012 eftir hafa verið að þróa hugmyndirnar í tvö ár. Nú er starfsemin komin á fullt skrið, og við seljum á Íslandi og í fimm öðrum löndum.“

Starfsmenn As We Grow eru þrír. „Það er ég, sem er lögfræðingur, og síðan María Ólafsdóttir, sem lærði fatahönnun í Parsons í New York, og Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir, prjóna- og fatahönnuður frá Listaháskóla Íslands,“ segir Gréta.

Hugmyndin kviknaði út frá peysu sem mamma Guðrúnar prjónaði. „Peysan ferðaðist á milli barna í níu ár. Hún varð eiginlega uppáhalds flík allra – og er enn í notkun.

Okkur fannst það skemmtileg pæling að föt gætu enst og gengið manna á milli, og vildum búa til svoleiðis föt fyrir börn.

Þá þurfa gæðin að vera nægilega mikil til að fötin endist, og fötin þurfa einnig að vera þannig sniðin að þau vaxi með börnunum.

Við erum ekki með þessar hefðbundnu stærðir, heldur eina stærð fyrir 6-18 mánaða gömul börn, aðra fyrir 8-36 mánaða, og svo fyrir 3-5 ára börn, og 6-8 ára börn.“


Fleiri fréttir

Sjá meira


×