Fótbolti

Ungverjar til vandræða á Vélodrome: Stukku yfir girðingu og kveiktu í sprengju

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stuðningsmennirnir stukku yfir girðinguna í horninu fjær sem sést á myndinni.
Stuðningsmennirnir stukku yfir girðinguna í horninu fjær sem sést á myndinni. vísir/esá
Harðkjarna stuðningsmenn Ungverjalands voru til vandræða á Stade Vélodrome nú rétt fyrir skömmu þar sem Ungverjar mæta Íslandi í öðrum leik liðanna á F-riðli EM 2016 í fótbolta klukkan 16.00. Leikurinn er í beinni textalýsingu hérna.

Þegar um klukkustund var í leikinn stukku um 100 svartklæddir stuðningsmenn Ungverjalands yfir öryggisgirðingu því þeir vildu komast fyrir aftan annað markið og vera með félögum sínum sem einnig eru svartklæddir.

Þessir svartklæddu stuðningsmenn eru helsti stuðningsmannakjarni ungverska landsliðsins. Hann er þó ekki hættulegur að sögn ungverskra blaðamanna hér á staðnum. Þeir hræddu vissulega sjálfboðaliðana sem reyndu að stöðva þá en létu þá annars í friði. Í miðjum látunum sprengdi einhver í ungverska hópnum litla sprengju.

Lögreglan var alltof sein á svæðið og náði aðeins að stoppa 10-20 svartklædda stuðningsmenn ungverska liðsins en allir hinir komust fyrir aftan markið þar sem þeir vildu sitja.

Ungverjar verða að minnsta kosti 21.000 á leiknum en talið er að þeir geti orðið allt upp í 30.000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×