Innlent

Gjaldtaka á Geysi hefst eftir mánuð

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Í mars verður byrjað að rukka inn á hverasvæðið í Haukadal.
Í mars verður byrjað að rukka inn á hverasvæðið í Haukadal.
Landeigendafélag Geysis hefur ákveðið að hefja gjaldtöku af ferðamönnum þann 10. mars næstkomandi. Þá mun kosta 600 krónur inn á hverasvæðið í Haukadal fyrir þá sem eru eldri en 16 ára. Börn sem eru yngri en 16 ára þurfa ekki að greiða til að komast inn á svæðið.

Í fréttatilkynningu frá félaginu kemur fram að ágóði gjaldtökunnar renni „til verndar og uppbyggingar á svæðinu sem verulega hefur látið á sjá undanfarin ár. Því er einnig ætlað að standa straum að aukinni upplýsingagjöf til ferðamanna, kröfum um meiri þjónustu við gesti svæðisins og til að bæta öryggi þeirra frá því sem nú er.“

Þar segir einnig að landeigendur hafi þurft að leggja út fyrir ýmsu án þess að fá tekjur á móti.

„Eigendur svæðisins hafa í áranna rás borið mikinn kostnað af svæðinu án þess að nokkrar tekjur hafi komið á móti til að sinna nauðsynlegu viðhaldi og uppbyggingu á hverasvæðinu. Landeigendur bera ábyrgð á varðveislu svæðisins. Þeim ber að vernda þessa náttúruperlu og tryggja um leið að svæðið verði áfram aðgengilegt og öryggi ferðamanna tryggt eins og kostur er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×